„Ég stofnaði ferðaskrifstofuna Heimsferðir fyrir 21 ári síðan, þá með einn starfsmann í vinnu. Fyrstu ferðirnar voru til Barcelona í kringum Ólympíuleikana 1992. Á sama tíma fluttum við Spánverja til landsins,“ segir Andri Már Ingólfsson, eigandi og forstjóri Primera Travel Group. Frá stofnun félagsins hefur það vaxið jafnt og þétt. Primera Air, flugrekstrarfélag samstæðunnar, rekur sjö Boeing 737 flugvélar sem sinna fjölmörgum ferðaskrifstofum samstæðunnar auk fleiri ferðaskrifstofa í Skandinavíu. Áætluð velta Primera Travel Group á þessu ári er um hundrað milljarðar króna, sem kemur félaginu í hóp stærstu fyrirtækja landsins.

Það hefur lítið farið fyrir Andra Má í íslensku viðskiptalífi á undanförnum árum, en hann er búsettur í Sviss ásamt fjölskyldu sinni. Starfsins vegna ferðast hann þó mikið og áætlar að hann eyði um 140 dögum á ári í ferðalög. Hann dvelst mikið í Danmörku, þaðan sem flugfélagið er rekið, en ferðaskrifstofur félagsins eru á Íslandi, í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er að finna ítarlegt viðtal við Andra Má. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.