Benedikt Jóhannesson, stofnandi og fyrrum formaður Viðreisnar, hyggst sækjast eftir oddvitasæti á framboðslista Viðreisnar „á suðvesturhorninu“ í þingkosningum á næsta ári. Benedikt greinir frá þessu í Facebook-færslu í umræðuhóp Viðreisnar.

Í samtali við Viðskiptablaðið vildi Benedikt ekki segja hreint út hvað nákvæmlega í orðalaginu felst. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er þó næsta víst að hann fer ekki gegn Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, núverandi formanni flokksins, í Suðvesturkjördæmi, og ólíklegt þykir að Benedikt telji suðurkjördæmi til suðvesturhornsins, þó hann hafi ekki viljað útiloka neitt í þeim efnum.

Allar líkur eru því á því að Benedikt horfi helst til Reykjavíkurkjördæmanna tveggja.

Viðreisn notast við svokallaða fléttulista, þar sem kynjunum er raðað til skiptis, þannig að öll oddatölusætin eru skipuð sama kyni, og sléttu tölurnar hinu kyninu. Þá hefur það verið stefnan að skipta oddvitasætunum einnig jafnt milli kynjanna, og oddvitar Reykjavíkurkjördæmanna hvor verið af sínu kyninu.

Sem kunnugt er hefur Þorsteinn Víglundsson – oddviti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi Norður í síðustu þingkosningum – sagt skilið við stjórnmálin, en hann var einnig varaformaður flokksins. Kosinn verður nýr varaformaður á komandi Landsþingi Viðreisnar nú undir lok mánaðar, en eina tilkynnta framboðið sem sakir standa er Daði Már Kristófersson hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Daði hafi hug á þingmennsku, og muni einnig sækjast eftir oddvitasæti, líkast til í Reykjavík. Jón Steindór Valdimarsson, eini sitjandi karlkyns þingmaður Viðreisnar, vermdi í síðustu kosningum annað sætið í kjördæmi formannsins, suðvestur, og fátt bendir til þess að á því verði breyting á næsta ári.

Það bendir því flest til þess að hart verði barist um karlkyns oddvitasæti Viðreisnar í borginni, en Hanna Katrín Friðriksson þingflokksformaður er talin svo til örugg um að leiða hinn borgarlistann. Fari Daði og Benedikt í hart er því hugsanlegt að sá sem undir verður taki annað sætið á eftir Hönnu.