*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 11. mars 2021 19:01

Stefnir í spennuþrunginn fund

Átta eru í framboði til stjórnar – á síðustu árum hefur verið töluverð endurnýjun í stjórn félagsins.

Trausti Hafliðason
Eftir tæplega tveggja ára kyrrsetningu fór Boeing 737 MA X vél Icelandair í áætlunarflug á mánudaginn.

Aðalfundur Icelandair Group verður haldinn með óhefðbundnu sniði á morgun. Vegna heimsfaraldurisins verður fundurinn rafrænn og þurftu hluthafar að skrá þátttöku sína með fimm daga fyrirvara. Fundinum verður streymt í beinni útsendingu til þeirra sem skráðu sig og þeir einir geta greitt atkvæði. Icelandair birtir ekki fjölda þeirra sem skráðu sig heldur hlutfall og alls skráðu fulltrúar 53% hlutafjár þátttöku á fundinum. Þess má geta að hátt í 14 þúsund hluthafar eru í félaginu.

Dagskrá fundarins er hefðbundin en á meðal þess sem lagt verður fyrir fundinn er að laun stjórnarmanna verði óbreytt, sem þýðir að stjórnarformaður fær 660 þúsund krónur á mánuði, varaformaður stjórnar 495 þúsund og aðrir stjórnarmenn 330 þúsund. Þá kemur ekki á óvart að engin tillaga er um arðgreiðslu fyrir árið 2020. Á fundinum verður óskað eftir heimild til endurkaupaáætlunar Icelandair Group um kaup á allt að 10% af eigin bréfum á næstu 18 mánuðum.

Stefnir í spennuþrunginn fund

Mesta spennan á fundinum snýr að stjórnarkjöri en átta manns gefa nú kost á sér sem er fáheyrt í þessu rótgróna félagi. Kosið er um fimm sæti og leggur tilnefningarnefnd til að stjórnin verði óbreytt á milli ára. Það hefur hins vegar ekki breytt því að þrír til viðbótar gefa nú kost á sér. Hafa þeir allir eða talsmenn þeirra verið áberandi í umræðunni síðustu vikur. Upphaflega stefndi í að frambjóðendurnir yrðu níu talsins en í gær dróg Martin J. St. George, framkvæmdastjóri hjá LATAM-flugfélaginu í Suður-Ameríku, framboð sitt til baka.

Í tilnefningarnefnd Icelandair Group sitja Helga Árnadóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri SAF og núverandi framkvæmdastjóri hjá Bláa Lóninu, Hjörleifur Pálsson, fyrrverandi fjármálastjóri Össurar og núverandi stjórnarformaður Sýnar, og Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair. Er þetta í annað skiptið sem sérstök tilnefningarnefnd starfar innan Icelandair Group en tilurð hennar má rekja til samþykktar á aðalfundi árið 2019.

Öfugt við það sem ýmsir kunna að halda hefur verið þónokkur endurnýjun í stjórn Icelandair á síðustu árum. Á hverju ári frá 2017 hefur verið endurnýjun í stjórninni, einn eða tveir nýir komið inn. Einungis einn stjórnarmaður hefur setið samfleytt frá árinu 2017 en það er Úlfar. Hann hefur raunar átt sæti í stjórn félagsins allt frá árinu 2010.

Í fyrra var sjálfkjörið í stjórnina. Tveir nýir stjórnarmenn komu inn en það voru John F. Thomas og Nina Jonsson. Komu þau í staðinn fyrir Ómar Benediktsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Farice, og Heiðrúnu Jónsdóttur, lögmann og varaformann stjórnar Íslandsbanka, en tvímenningarnir hlutu ekki náð fyrir augum tilnefningarnefndar í fyrra og gáfu ekki kost á sér. Ómar hafði þá setið í stjórninni í þrjú ár og Heiðrún tvö.

Katrín Olga felld og Sigurður hættir

Í stjórnarkjörinu 2019 voru sjö í framboði. Svafa Grönfeldt, sem m.a. hefur verið framkvæmdastjóri hjá Alvogen og rektor Háskólans í Reykjavík, kom ný í stjórnina fyrir Ásthildi Margréti Otharsdóttur, sem gaf ekki kost á sér. Hafði Ásthildur setið í stjórninni frá 2012. Guðný Hansdóttir, fjárfestir og fyrrverandi framkvæmdastjóri mannauðssviðs hjá Innness, hlaut ekki brautargengi í kosningunum og það gerði Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands, ekki heldur. Þórunn er nú ein af þeim átta sem gefa kost á sér í stjórn á aðalfundi félagsins á morgun.

Árið 2018 kom Guðmundur Hafsteinsson, fyrrverandi yfirmaður vöruþróunar Google Assistant, nýr í stjórnina sem og Heiðrún. Þetta voru mikil tíðindi því Katrín Olga Jóhannesdóttir, sem hafði átt sæti í stjórn frá árinu 2009, var felld í stjórnarkjörinu. Ýmsar kenningar voru á lofti en sú lífseigasta var að stór hópur hluthafa hefði verið ósáttur við það þegar hún seldi hluti í félaginu tveimur árum áður og gengi bréfa í félaginu féllu nokkuð í kjölfarið. Þetta ár hætti Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga, í stjórninni eftir árs setu.

Miklar breytingar urðu í stjórn Icelandair árið 2017. Þá ákvað Sigurður Helgason að gefa ekki kost á sér en hann hafði verið stjórnarformaður félagsins frá árinu 2009. Sigurður hafði starfað hjá félaginu í 43 ár en hann hóf störf í fjárreiðudeild Flugleiða árið 1974 og var síðan forstjóri félagsins í 20 ár eða frá 1985 til 2005. Georg kom inn í stjórnina og Úlfar var kjörinn stjórnarformaður.

Fótunum kippt undan

Ljóst er að Icelandair stendur á ákveðnum tímamótum. Rekstur félagsins hefur gengið erfiðlega síðustu ár og þegar heimsfaraldurinn skall á hrundu tekjurnar, líkt og hjá flugfélögum um allan heim. Icelandair tapaði 51 milljarði króna á síðasta ári og hlutabréf félagsins féllu um 80%.

Síðasta haust fór félagið í hlutafjárútboð sem skilaði því á fjórða tug milljarða króna, sem dugðu til að fleyta því í gegnum árið með þokkalega eigin- og lausafjárstöðu. Þessu til viðbótar ábyrgðist ríkið 15 milljarða króna lánalínu til félagsins.

Sækjast eftir endurkjöri:

Úlfar Steindórsson hefur setið í stjórn Icelandair Group frá árinu 2010 og verið stjórnarformaður frá árinu 2017. Hann er forstjóri Toyota á Íslandi.

 

 

Svafa Grönfeldt hefur setið í stjórn félagsins í tvö ár og er varaformaður. Hún hefur m.a. starfað sem fram­kvæmda­stjóri hjá Alvogen og rektor Háskól­ans í Reykja­vík.

 

 

Guðmundur Hafsteinsson hefur setið í stjórn Icelandair frá árinu 2018. Hann er fyrrverandi yfirmaður vöruþróunar Google Assistant.

 

 

John F. Thomas kom nýr í stjórn Icelandair í fyrra. Hann var forstjóri Virgin Australia Airlines og síðar ráðgjafi fjölmargra flugfélaga.

 

 

Nina Jonsson kom ný í stjórn Icelandair í fyrra. Hún er ráðgjafi hjá Plane View Partners og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Air France-KLM.

 

 

Nýir frambjóðendur:

Steinn Logi Björnsson fyrrum forstjóri Bláfugls. Hann starfaði hjá Icelandair frá 1985 til 2005 m.a. sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs.

 

 

Sturla Ómarsson stjórnarformaður Eftirlaunasjóðs félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA) og starfaði sem flugstjóri hjá Icelandair í um aldarfjórðung.

 

 

Þórunn Reynisdóttir forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands. Áður starfaði hún m.a. sem stöðvarstjóri hja Icelandair í Danmörku og markaðsstjóri Iceland Express.

 

 

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Icelandair