Það er af nógu af taka þegar litið er hvað er framundan á funda- og ráðstefnum á árinu 2020. Að sögn Sigurðar Vals Sigurðssonar, markaðsstjóra Meet in Reykjavík, er gert ráð fyrir að aukning í ráðstefnuhaldi á árinu verði allt að 15-20% frá árinu 2019 sem var metár. Mikil aukning hefur verið í þessum geira allt frá því að Harpa var opnuð árið 2011 enda fara flestir af stærstu viðburðunum fram í húsinu. Ljóst er að mikilvægi viðburða á borð við ráðstefnuhald er mikilvægt fyrir íslenska ferðaþjónustu.

Tekjur af hverjum ráðstefnugesti að jafnaði eru um tvöfalt hærri á hverja gistinótt en af meðalferðamanni. Áætlað er að 1.000 manna ráðstefna skilji eftir sig um 400 milljónir króna í gjaldeyristekjum auk þess sem 80% þeirra koma utan háannar í ferðaþjónustu. Hér verður stiklað á stóru yfir stærstu viðburði ársins en það skal tekið fram að ekki er um tæmandi lista að ræða.

UT messan

UT messan stendur nú yfir í Hörpu en hún hófst í gær. Ráðstefnan hefur verið haldin samfleytt frá árinu 2011 en óhætt er að segja að um sé að ræða einn stærsta viðburðinn í upplýsingatæknigeiranum ár hvert. Ráðstefnan er haldin af Ský í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands en stærstu styrktaraðilar hennar í ár eru Origo, Opin kerfi, Sensa og Marel. Þann 7. febrúar mun fara fram ráðstefna og sýning fyrir fagfólk í greininni en daginn eftir verður opið fyrir almenning á sýningu á tölvugeiranum. Á viðburðinum verða alls 10 ráðstefnulínur, 50 fyrirlesarar, rúmlega 50 sýnendur og þá er gert ráð fyrir rúmlega 1.000 ráðstefnugestum og rúmlega 10.000 sýningargestum.

Arctic Circle

Hringborð norðurslóða verður haldið í Hörpu þann 8. til 11. október. Er þetta í áttunda skiptið sem ráðstefnan fer fram en um er að ræða stærstu samkomu um málefni norðurslóða í heiminum. Á síðasta ári voru ráðstefnugestir yfir 2.000 talsins frá 60 löndum og þeirra á meðal voru þjóðarleiðtogar, ráðherrar, þingmenn, vísindamenn og stjórnendur fyrirtækja. Samtals tóku yfir 600 manns til máls í 185 viðburðum. Á heimasíðu hringborðsins segir að tilgangur þess sé að skapa opinn, lýðræðislegan og alþjóðlegan vettvang fyrir umræður og samstarf um málefni svæðisins milli stjórnmálaleiðtoga, stjórnenda fyrirtækja, vísindamanna, háskóla, umhverfisverndarsamtaka, sérfræðinga og annarra.

The World Geothermal Congress

Heimsráðstefna Alþjóða jarðhitasambandsins verður haldin í Hörpu frá 27. apríl til 1. maí. Ráðstefnan er haldin á fimm ára fresti en þetta er í fyrsta sinn sem hún fer fram hér á landi en Alþjóða jarðhitasambandið var stofnað árið 1988. Á heimasíðu sambandsins segir að ráðstefnugestir muni fá tækifæri til að sjá frá fyrstu hendi hvernig Íslandi hafi tekist að verða leiðandi í nýtingu jarðvarma í heiminum. Búist er við yfir 3.000 ráðstefnugestum frá öllum heimsálfum en ráðstefnunni er ætlað að sameina leiðtoga og hagsmunaaðila í orkumálum frá löndum sem bæði hafa náð eða eru að vinna að nýtingu jarðvarma auk stjórnmálamanna og fulltrúa frá alþjóðlegum fjármálafyrirtækjum.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Fundir & ráðstefnur. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .