Útlit er fyrir að 40 þúsund starfsmenn breska járnbrautarfélagsins Network Rail mæti ekki til vinnu á morgun vegna deilna um laun og uppsagnir. Önnur eins verkföll eru boðuð á fimmtudaginn og á laugardaginn. Að óbreyttu verður þetta stærsta verkfallið í breska lestarkerfinu í tæpa þrjá áratugi.

Viðræður á milli samningsaðila standa enn yfir. Í umfjöllun Financial Times segir þó að ákvörðun viðskiptaráðherrans Kwasi Kwarteng að afnema lögbann á tímabundnar ráðningar starfsfólks til að leysa af hólmi fólki í verkfalli gefi til kynna að breska ríkisstjórnin eigi ekki von á jákvæðum niðurstöðum úr viðræðunum.

Gert er ráð fyrir röskun á starfsemi á helstu lestarlínum í Bretlandi, þar á meðal í neðanjarðarlestarkerfinu í London.

Meðlimir RMT verkalýðsfélagsins kusu með sex mánaða verkfallsheimild í síðasta mánuði. Því er mögulega von á frekari verkföllum síðar í sumar og í haust.

Ráðherrar bresku ríkisstjórnarinnar vonast til að halda launahækkunum innan opinbera geirans í kringum 2% þrátt fyrir að Englandsbanki gerir ráð fyrir að verðbólga aukist áfram og nái 11% í október.