Það lítur út fyrir að EBITDA af rekstri Eimskips á fjórða ársfjórðungi 2021 verði umtalsvert betri en á sama ársfjórðungi síðasta árs. Greint er frá þessu í tilkynningu til Kauphallarinnar en í henni segir stefna í ofangreint samkvæmt stjórnendauppgjöri fyrir október og nóvember ásamt nýrri spá fyrir desember.

Áætlað sé að EBITDA á fjórða ársfjórðungi verði á bilinu 26,7 til 29,7 milljónir evra samanborið við 14,9 milljónir evra á sama ársfjórðungi síðasta árs.  Að teknu tilliti til væntra afskrifta megi gera ráð fyrir að EBIT fjórðungsins verði á bilinu 12,7 til 15,7 milljónir evra samanborið við 3,2 milljónir evra á fjórða ársfjórðungi síðasta árs.

„Helstu ástæður betri afkomu eru góður gangur í gámasiglingum með auknu magni og bættri framlegð. Auk þess hefur verið áframhaldandi sterk afkoma í alþjóðlegri flutningsmiðlun á fjórða ársfjórðungi. Í desember var greidd út sérstök jólagreiðsla til starfsmanna Eimskips á alþjóðavísu fyrir framúrskarandi framlag við krefjandi aðstæður ásamt góðri afkomu á árinu 2021 og nam sú greiðsla um einni milljón evra,“ segir í tilkynningu Eimskips.

Gangi spáin eftir verði um umtalsverða hækkun á rauntölum úr rekstri milli tímabila að ræða og megi þá gera ráð fyrir að afkoma félagsins á árinu 2021 verði yfir efri mörkum uppfærðrar afkomuspár sem gefin var út 9. nóvember sl.

Uppfærð afkomuspá fyrir árið 2021 sé nú aðlöguð EBITDA á bilinu 109,5 til 112,5 milljónir en var áður á bilinu 102 til 110 milljónir evra. Aðlagað EBIT sé nú áætlað á bilinu 58,5 til 61,5 milljónir evra.

Í tilkynningunni er þó bent á að fjórða ársfjórðungi sé ólokið og geti niðurstöður því tekið breytingum af þeim sökum sem og í uppgjörsferlinu og við endurskoðun ársreiknings.