Lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs hækkuðu úr 388,5 milljörðum árið 2012 í 407,7 milljarða árið 2013. Hækkunin milli ára nemur 19,2 milljörðum króna. Ef skuldbindingarnar eru reiknaðar sem hlutfall af landsframleiðslu lækkuðu þær milli ára úr 22,9% í 22,8%.

Af lífeyrisskuldbindingum ríkissjóðs eru 342,7 milljarðar króna gagnvart B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og 41,1 milljarður gagnvart Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga (LH). Ríkið er einnig með skuldbindingar gagnvart nokkrum öðrum lífeyrissjóðum en nálægt 95% skuldbindinganna eru samt vegna LSR og LH.

Stefnir í þrot

Ari Skúlason, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, skrifaði grein um þessi mál fyrir tveimur árum. Í henni sagði hann að engar aðgerðir væru í gangi til að bregðast við vandanum í opinbera kerfinu. Miðað við óbreytt ástand stefndu B-deild LSR og LH í þrot árið 2026. Ef það gerðist myndi ríkissjóður þurfa að greiða um 19 milljarða næstu 10 árin þar á eftir en greiðslurnar færu lækkandi eftir það. Þessar greiðslur kæmu til viðbótar við greiðslu lífeyrishækkana, sem árlega myndu nema 11-12 milljörðum á þessu tímabili.

„Staðan er sú sama í dag, það er ekki verið að bregðast við þessum vanda,“ segir Ari í samtali við Viðskiptablaðið.

Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins um lífeyri og tryggingar sem kom út á fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .