Í Morgunkorni Glitnis segir að vextir á útlánum Íbúðalánasjóðs ákvarðast af fjármögnunarkostnaði í reglulegum útboðum sjóðsins, fjármagnskostnaði vegna uppgreiddra lána og vaxtaálagi. Sjóðurinn hefur þegar hækkað vexti á árinu vegna kröfuhækkunar á íbúðabréfum um 0,15 prósentur og eru vextir sjóðsins með uppgreiðsluálagi nú orðnir þeir sömu og sjóðurinn bauð þegar samkeppni hófst á húsnæðislánamarkaði í ágúst 2004 með innkomu viðskiptabankanna á húsnæðislánamarkað. Við reiknum með því að sjóðurinn þurfi að hækka vexti sína enn frekar á næstu vikum.

Krafa íbúðabréfa hefur hækkað hratt undanfarnar vikur og við teljum litlar líkur á að hún muni lækka aftur svo einhverju nemi á næstu vikum. Fari Íbúðalánasjóður í útboð við þær aðstæður sem nú eru á markaði má reikna með að hann þurfi að hækka vexti um 0,35-0,45 prósentur. Verði það raunin munu vextir sjóðsins á útlánum með uppgreiðsluákvæði verða 5,2%-5,3% í stað 4,85% og 5,45%-5,55% í stað 5,1% án uppgreiðsluákvæðis. (HDV)