Fyrstu átta mánuði ársins hafa 950 fyrirtæki verið tekin til gjaldþrotaskipta en það er 52% fleiri en á sama tímabili í fyrra. Langflest gjaldþrot eru sem fyrr innan byggingageirans. Fast þar á eftir koma fyrirtæki í heild- og smásöluverslun og fyrirtæki í fasteignaviðskiptum. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands. Það er því ekki útlit fyrir annað en að algert met verði slegið í fjölda gjaldþrota á árinu og að þau verði væntanlega vel á annað þúsund talsins þegar upp verður staðið.

Ef reynt er að rýna betur í þróunina síðustu 3-4 mánuðina er ekki svo að sjá sem verulega sé farið að hægja á gjaldþrotum fyrirtækja miðað við fyrri ár, að minnsta kosti ekki enn sem komið er. Þannig voru um 60% fleiri gjaldþrot á tímabilinu maí til ágúst í ár en á sama tímabili í fyrra en yfirleitt eru heldur færri fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á síðari helmingi ársins en þeim fyrri.

Hagstofan hefur einnig birt tölur um nýskráningu einkahlutafélaga og í þeim kemur fram að nýskráningum hefur lítillega fækkað á fyrstu átta mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra en þær voru 1.071 á móti 1.112 á sama tímabili í fyrra. Af nýskráðum einkahlutafélögum voru flest skráð í fasteignaviðskiptum.