Flugumferðastjórar hafa boðað til 20 stuttra vinnustöðvana frá og með næsta föstudegi, 27. júní, verði ekki gengið að launakröfum þeirra. Mikið ber í milli í samningaviðræðum Félags íslenskra flugumferðastjóra (FÍF) og Samtaka atvinnulífsins. Viðskiptablaðið sló á þráðinn til Lofts Jóhannssonar, formanns FÍF, og var hann þá nýkominn af fundi með ríkissáttasemjara um framkvæmd fyrirhugað verkfalls. Hann kvaðst ekki bjartsýnn á að samningar næðust fyrir föstudaginn.

„Það var fundur hjá sáttasemjara í dag, en þar voru kjaramál í raun ekkert rædd, eingöngu framkvæmd á verkfalli. Því miður stefnir allt til þess eins og staðan er núna að af verkfalli verði,“ sagði Loftur. Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, sagðist einnig telja líklegt að af verkfalli verði.

Næsti fundur verður á fimmtudaginn, en takist samningar ekki þá hefst verkfall á föstudaginn.

Við verkstöðvanir flugumferðastjóra stoppar öll flugumferð sem á upphaf eða endi á Íslandi í fjóra tíma í senn á morgnana. Nokkur töf mun því verða á millilandaflugi.

Hætt við verkfall 2001

Árið 2001 boðuðu flugumferðastjórar hrinu verkfalla, og átti fyrsta verkfallið að verða 16. nóvember. Þá kallaði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, fulltrúa FÍF á sinn fund 12. nóvember. Á fundinum krafðist Davíð þess að FÍF aflýsti boðuðum verkföllum, ellegar yrði verkfallsréttur flugumferðarstjóra afnuminn varanlega með lögum. Í kjölfarið aflýsti FÍF boðuðum verkföllum. Geir H. Haarde forsætisráðherra vildi ekki tjá sig um kjaradeilu flugumferðarstjóra að svo stöddu þegar Viðskiptablaðið hafði samband við hann.

Samtök atvinnulífsins (SA) eru ósátt við kröfur flugumferðastjóra. SA hafa m.a. bent á að kaupmáttur dagvinnulauna þeirra hefur aukist um 172% frá árinu 1990 en 102% hjá opinberum starfsmönnum í heild. Einnig benda SA á að meðallaun flugumferðarstjóra vera  809.000 krónur á mánuði, þar af 450.000 króna dagvinnulaun.

„Þessar tölur eru eflaust réttar,“ segir Loftur. „En ef gengið yrði 100% að okkar kröfum mundu meðallaun ekki hækka neitt. Yfirvinnan myndi bara hverfa.“