Bandaríska hagkerfið dróst saman um 4,8% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, í fyrsta sinn í sex ár, 26,5 milljónir manna hafa sótt um atvinnuleysisbætur síðustu fimm vikur og 6% fasteignalána eru í greiðsluaðlögun.

Hið opinbera hefur sett hátt í 5 billjónir (e. trillion) dala í björgunaraðgerðir – ígildi um 700 þúsund milljarða króna, en það kann að reynast þrautinni þyngra að koma þeim fjármunum á rétta staði í tæka tíð.

Um helmingur kemur frá seðlabankanum, sem hefur ráðist í allt frá hefðbundnum vaxtalækkunum og kaupum á ríkisskuldabréfum yfir í bein lán til smárra og millistórra fyrirtækja, og stemningin er ágæt á hlutabréfamörkuðum vestanhafs þessa dagana.

Hinn helmingurinn verður í formi samanlagt 2,5 billjóna dala aðgerðapakka, sem meðal annars fela í sér 1.200 dala beingreiðslu til hátt í 100 milljónir manna.

Hagvaxtartölurnar – sem eru bráðabirgðatölur og sýndu 4,8% árstíðaleiðréttan samdrátt landsframleiðslu á ársgrundvelli – voru nokkru verri en greinendur höfðu spáð, eða um 4%.

Samdrátturinn batt enda á lengsta samfellda hagvaxtarskeið síðari tíma vestanhafs. Mest áhrif hafði 7,6% samdráttur einkaneyslu, stærsta einstaka undirliðar landsframleiðslu, og var það mesti samdráttur hans síðan í upphafi 9. áratugarins.

Spá 30 til 40% neikvæðum hagvexti
Þrátt fyrir þetta er ljóst að samdrátturinn á enn eftir að koma fram af fullum krafti í mældri landsframleiðslu, enda lauk fyrsta ársfjórðungi um mánaðamót mars-apríl, þegar aðeins voru komnar tæpar tvær vikur síðan útgöngu- og samkomubönn voru lögð á.

Þótt greinendur greini á, og gríðarleg óvissa ríki um hvenær storminn mun lægja, eru flestir sammála um að yfirstandandi ársfjórðungur verður umtalsvert verri en sá fyrsti á árinu. Afar ólíklegt þykir að teljandi viðspyrna náist fyrir lok hans um mitt árið, og flestir spá á bilinu 30 til 40% samdrætti á ársgrundvelli.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .