„Ég vorkenni þeim fyrirtækjum sem reiða sig á jólaverslunina ef það eru einhverjar vikur í að þetta leysist,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, en Viðskiptablaðið náði tali af honum þegar hann var nýkominn af fundi með fulltrúum ríkisstjórnarinnar og hagsmunaaðilum á gjaldeyrismarkaði í gær.

Andrés segist orðinn vonlítill um að mikilla breytinga sé að vænta á gjaldeyrismiðlun til og frá landinu á næstu dögum en afskaplega illa hefur gengið að fá gjaldeyri til landsins undanfarið og berast greiðslur mjög treglega frá erlendum aðilum. Bankarnir þurfa því að treysta á gjaldeyrisuppboð Seðlabanka til þess að lifa til næsta dags en gjaldeyrisuppboðið og það sem því fylgir er fjarri því að nálgast eðlileg gjaldeyrisviðskipti.

Allur gjaldeyrir fer í gegnum Seðlabankann en þeirri gjaldeyrismiðlun fylgir bæði lengra ferli og aukin pappírsvinna. Við það bætist síðan sjálf gjaldeyrisskömmtunin sem veldur því að þeir þurfa frá að hverfa sem vilja greiða eitthvað sem ekki samrýmist reglum Seðlabankans. „Að óbreyttu sé ég ekki fram á annað en að það fari að verða veruleg vöruvöntun í landinu. Maður verður var við hvernig verktaka- og byggingamarkaðurinn gólar en þar er orðin efnisvöntun enda þeir vöruflokkar hreint ekki á forgangslista,“ segir Andrés.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .