Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir að horfur séu á að ríkissjóður verði rekinn með yfir hundrað milljarða króna halla á þessu ári. Þetta kom fram í viðtali við Bjarna í Bítinu á Stöð 2 og Bylgjunni. Bjarni lagði hins vegar áherslu á að mikilvægt væri að ríkið gerði frekar of mikið en of lítið til að styðja við atvinnulífið og að sem flestir héldu atvinnunni.

Hleypa þyrfti sem mestu súrefni inn í atvinnulífið til að koma því í gegnum núverandi aðstæður. Tekjur fyrirtækja gætu fallið um 70-80% í einstaka tilfellum og jafnvel meira. Án aðgerða gæti samfélagið orðið fyrir gríðarlegum skelli, atvinnuleysi gæti farið upp í 8% og fjöldinn allur af fyrirtækjum gæti farið í þrot. Það væri mun kostnaðarsamara fyrir ríkissjóð en að grípa til aðgerða strax.

Engu síður væri ljóst að ekki væri hægt að hindra allt tjón og við værum að fara í gegnum erfiða tíma.

Eitt af því sem myndi hjálpa fyrirtækjum í gegnum kúfinn væri að stjórnvöld væru reiðubúin að greiða atvinnuleysisbætur að hluta til að hveta fyrirtækja til að minnka frekar starfshlutfall starfsmanna en að segja upp fólki. Þá stæði yfir samtal við Seðlabankann sem byggi einnig yfir verkfærum til að veita frekara súrefni inn í atvinnulífið.

Fleiri aðgerðir væru til skoðunar þar sem hægt væri að leita í verkfærakistu hrunsins. Þáttastjórnendur nefndu allir vinna átakið,  þar sem virðisaukaskattur var endurgreiddur af vinnu fyrir íbúðarhúsnæði. Bjarni sagði að slíkt væri til skoðunar. Það myndi hjálpa til en ekki breyta miklu í stóru myndinni. Þær aðgerðir sem þegar hefðu verið kynntar væru mun stærri að umfangi og myndu gera meira til að styðja við atvinnulífið og að sem flestir héldu sínum störfum.

Bjarni lagði jafnframt áherslu á að til lengri tíma væru horfurnar góðar í ferðaþjónustunni sem og öðrum atvinnugreinum hér á landi.