Sjóðastýringarfyrirtækið Stefnir, dótturfélag Arion banka, keypti í utanþingsviðskiptum í gær 47 milljónir hluta í fasteignafélaginu Reginn fyrir rúmar 500 milljónir króna. Kaupunum var flaggað í dag enda viðskiptin tilkynningaskyld. Stefnir fer fyrir hönd sjóða félagsins með 8,54% hlut í Reginn.

Flóki Halldórsson, framkvæmdastjóri Stefnis, vildi ekki tjá sig um það í samtali við vb.is af hverjum fyrirtækið keypti hlutinn.

Hefur hækkað um næstum 50%

Gengi hlutabréfa Regins hefur hækkað um 3,03% það sem af er dags í 590 milljóna króna veltu í Kauphöllinni. Gengi hlutabréfa félagsins stendur nú í 12,26 krónur á hlut og hefur það aldrei verið hærra. Hlutabréf Regins voru skráð á markað í fyrrasumar og hefur það hækkað um 48,6% frá útboði í aðdraganda skráningar.