SF III slhf., félag í rekstri Stefnis hf., hefur gert samning um kaup á 82% eignarhlut í Jarðborunum hf. af Miðengi ehf., dótturfélagi Íslandsbanka. Eigendur SF III eru Festa lífeyrissjóður, Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Samherji hf. og Stefnir Íslenski Athafnasjóðurinn I. Miðengi ehf. mun áfram fara með 18% eignarhlut í félaginu.

Kaupsamningurinn sem nú hefur verið undirritaður er háður skilyrðum um tiltekin atriði, þ.á.m. samþykki Samkeppniseftirlitsins. Ekki kemur fram í tilkynningu hvert kaupverðið er.

Þetta er haft eftir Bent Einarssyni, forstjóra Jarðborana í fréttatilkynningu:

„Við erum ánægð með aðkomu nýrra meirihlutaeigenda Jarðborana, stefnu þeirra og framtíðarsýn. Áfram verður byggt á þeim grunni sem fyrir er innan félagsins og höfuðstöðvarnar verða áfram á Íslandi. Traust og öflugt eignarhald er mikilvæg forsenda frekari velgengni Jarðborana. Þar horfum við ekki síst til vaxandi umsvifa félagsins á erlendum mörkuðum og þeirra tækifæra sem felast í aukinni áherslu á vistvæna orkugjafa víða um heim.“

Miðengi ehf. hóf opið söluferli á félaginu í ágúst 2011 sem fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hafði umsjón með. Söluferlið var auglýst í fjölmiðlum og bárust fjölmörg tilboð í félagið frá innlendum jafnt sem erlendum fjárfestum að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Í kjölfarið voru teknar upp viðræður við hæstbjóðanda sem lauk með umræddri sölu.