Stefnir - ÍS 15, sjóður Stefnis, dótturfyrirtækis Arion banka, keypti fimmtung þeirra hlutabréfa sem Framtakssjóðurinn hefur selt í Icelandair Group eða 50 milljón hluti af 250 milljónum. Gengi hlutabréfa Icelandair Group hefur hækkað um 1,13% í Kauphöllinni í dag. Ætla má, miðað við gengi bréfanna, að kaupverð á 50 milljónum hlutum hafi numið rúmum 675 milljónum króna. Sjóðir Stefnis eru eftir viðskiptin stærstu hluthafar Icelandair Group með 15,77% hlut í félaginu, að því er fram kemur í flöggun til Kauphallarinnar. Stefnir var fyrir hönd sjóðanna skrifaður fyrir 7,95% hlut og var þriðji stærsti hluthafi flugrekstrarfélagsins í síðustu viku. Lífeyrissjóður verslunarmanna er kominn úr toppsætinu í annað sætið.

Eins og fram kom á vb.is í morgun seldi Framtakssjóðurinn sem svarar til tæplega 5% hlutar í Icelandair. Sjóðurinn á eftir viðskiptin 7,01% hlut, um 350 milljón hluti, og er enn á meðal stærstu hluthafa. Söluverðið miðað við lokagengi bréfanna á föstudag nam um 3.375 milljónum króna.