Sjóðir í stýringu Stefnis og tryggingafélagið VÍS munu kaupa ríflega fimmtungshlut í fasteignaþróunarfélaginu Kaldalóni á rúman 1,3 milljarð króna, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar nú fyrir skemmstu.

Sjóðir Stefnis munu kaupa 16,5% hlut fyrir sléttan milljarð, og VÍS tæpan 5,4% hlut á 325 milljónir króna. Kaupverðið er sagt verða nýtt meðal annars til kaupa á tekjuberandi eignum. Kaupin voru samþykkt á stjórnarfundi fyrr í dag, og byggja á heimild aðal- og hluthafafunda í fyrra, hvar hluthafar afsöluðu sér forgangsrétt að nýjum hlutum, sem stjórn getur því selt beint til nýrra fjárfesta.

Kaldalón stefnir að skráningu á aðalmarkað Kauphallarinnar á næsta ári samkvæmt viljayfirlýsingu sem gefin var út í síðasta mánuði. Arion banki mun sölutryggja sölu í tengslum við skráninguna fyrir allt að 5 milljarða króna.

Þá var tilkynnt um það í síðustu viku að gefnir yrðu út nýjir hlutir upp á 360 milljónir sem keyptir voru af félagi í eigu Jonathans B. Rubini – ríkasta manns Alaska – og hlutir upp á 500 milljónir sem notaðir voru til kaupa á félaginu Hvannir ehf. sem á hið 93 herbergja Storm hótel við Þórunnartún.

Gengið í þeim viðskiptum var það sama og nú, 1,3 krónur á hlut, en bréf félagsins hafa hækkað um 10% frá áramótum og kosta 1,32 krónur á hlut í Kauphöllinni í dag.