Guðmunda Smáradóttir tók við starfi forstöðumanns Opna háskólans í HR á vormánuðum. Hún hefur starfað hjá skólanum síðan 2011, fyrst sem verkefnastjóri og síðan forstöðumaður stjórnendamenntunar í HR. Opni háskólinn sinnir endurmenntun fyrir stjórnendur og sérfræðinga úr atvinnulífinu. „Við beinum sjónum okkar að tækni, viðskiptum og lögum og grundvallast starfsemi Opna háskólans á samvinnu við atvinnulífið,“ segir Guðmunda, „Kennsluefnið er sótt inn í deildir HR sem og til samstarfsaðila innanlands og utan. Námskeið Opna háskólans í HR eru sniðin að þörfum atvinnulífsins hverju sinni og geta verið allt frá einni önn upp í eitt ár að lengd.“

Guðmunda stundaði nám við Verslunarskóla Íslands áður en hún hélt á vit ævintýranna og dvaldi í París, Mílanó og Vín í tvö ár. Þegar heim var komið kláraði hún BS-próf í frönsku og meistarapróf í viðskiptafræði. „Ég er komin nokkuð áleiðis með annan master, í opinberri stjórnsýslu. Kláraði svo nám í stjórnendamarkþjálfun í HR í vor. Nám sem er algjörlega hægt að mæla með.“

Kláruðu barnakvótann hratt og örugglega

Í dag er Guðmunda gift, þriggja barna móðir. „Ég er svo lánsöm að eiga þrjá spræka unglinga sem ég eignaðist á tveimur og hálfu ári. Við hjónin kláruðum barnakvótann hratt og örugglega,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .