Sjóðastýringarfyrirtækið Stefnir hefur lokið formlegri úttekt á stjórnarháttum fyrirtækja. Úttektin var sett á laggirnar á fyrri hluta síðasta árs með samstarfssamningi Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins, NASDAQ OMX Iceland og Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands.

Fyrir vikið hefur Stefnir hlotið viðurkenninguna „Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.“

Það er endurskoðunarfyrirtækið KPMG sem gerði úttektina.

Stefnir er jafnframt fyrsta fyrirtækið til að ljúka ferlinu, að því er fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins.

Ferlið er þrískipt. Fyrst þarf stjórn viðkomandi fyrirtækis að óska eftir úttektinni og velur til þess formlega úttektaraðila sem safnar gögnum á borð við fundargerðir, starfsreglur, siðareglur, minnisblöð o.fl. auk þess að taka viðtöl við einstaka stjórnarmenn og stjórnendur. Daglegir stjórnarhættir fyrirtækisins eru svo bornir saman við leiðbeiningar um góða stjórnarhætti. Að því loknu er skýrslu skilað til stjórnar fyrirtækisins. Stjórninni stendur til boða í kjölfarið að senda skýrsluna til Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands til nánari skoðunar. Standist viðkomandi fyrirtæki úttektarferlið er því veitt viðurkenning sem fyrirtækinu er heimilt að nota í allt að ár frá veitingu hennar.