Það er mikið vandaverk að varðveita, ráðstafa og ávaxta fjármagni til langs tíma eftir því sem hagkerfi rísa og dala til skiptis. Einn sjóður sem notið hefur farsældar á því sviði er blandaði fjárfestingarsjóðurinn Stefnir-Samval, sem fagnar nú 20 ára samfelldri rekstrarsögu.

Samval er í rekstri sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnir hf., sem er einnig 20 ára á þessu ári. Stefnir er sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki í eigu Arion banka, en bankinn annast vörslu, markaðssetningu og sölu sjóða hjá Stefni. Sjóðurinn, sem stofnaður var árið 1996, dregur nafn sitt af grunnstefi eignastýringar – samvali verðbréfa – og er einn elsti og fjölmennasti fjárfestingarsjóður landsins. Elsti sjóður landsins og jafnframt fyrsti verðbréfasjóður landsins er Stefnir-Eignastýringarsjóður, sem er 30 ára á þessu ári.

Stærð Samvals er um 7,5 milljarðar króna, en alls stýrir Stefnir um 400 milljörðum. Sjóðfélagar eru yfir 4.000 og er sjóðurinn með um 900 kennitölur í áskrift. Markhópur sjóðsins eru sparifjáreigendur, fjárfestar og einkahlutafélög.

Uppsöfnuð ávöxtun Samvals frá upphafi er tæp 1.100% og frá ársbyrjun 2009 er ávöxtunin um 180%. Meðalnafnávöxtun á ári undanfarin 5 ár er tæplega 16%. Árið í fyrra var eitt það besta í sögu sjóðsins, þegar ávöxtun nam 33,4%, en mest var ávöxtun sjóðsins árið 2005, eða 64,1%. Í tuttugu ára fjárfestingarsögu sjóðsins hefur ársávöxtun aðeins orðið neikvæð þrisvar: 2000, 2001 og 2008.

Magnús Örn Guðmundsson stýrir Samvali og fimm öðrum sjóðum sem sjóðstjóri blandaðra sjóða hjá Stefni, og hefur gegnt stöðu sjóðstjóra hjá Stefni frá 2008.

Frá hlutabréfasjóði í blandaðan fjárfestingarsjóð

Stefnir-Samval var stofnaður 26. september 1996 og hóf formlega starfsemi 1. nóvember. Þá gekk hann reyndar undir öðru nafni sem Hlutabréfasjóður Búnaðarbanka Íslands. Sjóðurinn varð síðan blandaði fjárfestingarsjóðurinn KB Samval árið 2004 með samruna Hlutabréfasjóðs Búnaðarbankans og Rekstrarfélags Kaupþings Búnaðarbanka.

Sem blandaður fjárfestingarsjóður hefur Samval heimildir til að fjárfesta í hlutabréfum, skuldabréfum og sérhæfðum fjárfestingum á borð við félög sem fyrirhugað er að skrá á markað (t.d. Skeljung), framtakssjóði, fagfjárfestasjóði, fasteignasjóði og fleira.

Sjóðurinn er auglýstur sem „eignastýring í einum sjóði“, því þeir sem kaupa sig inn í sjóðinn kaupa í raun hlut af eignastýringu Stefnis eins og hún leggur sig.

Sjóðurinn er uppsöfnunarsjóður, sem þýðir að öllum hagnaði er endurfjárfest við höfuðstól sjóðsins. Stýring sjóðsins er virk í þeim skilningi að fjármagn er fært á milli eignaflokka eftir því hvernig árar í efnahagslífinu, en á sama tíma byggir sjóðurinn upp langtímastöður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.