Fjármálaeftirlitið gaf í dag út skýrslu um þar sem dregnar eru saman heildarniðurstöður úr ársreikningum íslenskra fjármálafyrirtækja fyrir árið 2014.

Þar kemur m.a. fram að heildarhagnaður íslenskra lánastofnana á síðasta ári hafi numið 85,8 milljörðum króna. Þar af er hagnaður viðskiptabankanna fjögurra, Arion banka, Íslandsbanka, Landsbankans og MP banka 81,4 milljarður króna. Mestum hagnaði skilaði Landsbankinn eða um 29,9 milljörðum króna en þar á eftir kom Arion banki með hagnað upp á 28,6 milljarða. Heildareignir íslenskra lánastofnana námu 4.031 milljörðum króna og var samanlagt bókfært eigið fé þeirra í lok ársins 668,6 milljarðar króna.

Heildarhagnaður íslenskra verðbréfafyrirtækja nam á síðasta ári um 263 milljónum króna. Þar hangaðist mest Arctica Finance um 172 milljónir króna en stærsta tap ársins var hjá Íslenskum verðbréfum, um 118,4 milljónum króna. Heildareignir verðbréfafyrirtækja námu rúmum þremur milljörðum króna.

Hagnaður Stefnis 44% af heildarhagnaði sjóðstýringafélaga

Heildarhagnaður rekstrarfélaga verðbréfasjóða nam rúmum 1,5 milljarði króna á síðasta ári og námu heildareignir þeirra samtals 9,4 milljörðum. Það félag sem stendur upp úr á meðal þeirra tíu félaga sem Fjármálaeftirlitið tekur saman er Stefnir. Heildarhagnaður þess á síðasta ári nam 867 milljónum króna en það er 44% af heildarhagnaði rekstrarfélaga verðbréfasjóða.

Þegar kemur að heildareignum þeirra sjóða sem þessi rekstrarfélög stýra kemur í ljós að samtals stýra þau 202 milljörðum króna í verðbréfasjóðum og 165 milljörðum í fjárfestingasjóðum. Stærsta verðbréfasjóði stýra Íslandssjóðir en heildareignir þeirra í verðbréfasjóðum námu 89 milljörðum króna á síðasta ári, þar á eftir kemur Stefnir með 47 milljarða. Stefnir eiga stærsta fjárfestingasjóðinn eða um 82 milljarða krónaen þar á eftir koma Landsbréf með 27,75 milljarða.

Hér má lesa skýrslu Fjármálaeftirlitsins í heild sinni.