Afkoma Sterling var neikvæð í fyrra en þó var hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) að sögn Þorsteins Arnar Guðmundssonar, forstjóra NTH og stjórnarformanns Sterling. Væntingar voru um jákvæða rekstrarniðurstöðu en Þorstein  segir ýmsar skýringar á að þær vonir brugðust. Sterling er í eigu Northern Travel Group, sem rekur einnig Iceland Express, en Fons, eignarhaldsfélag Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, er stærsti einstaki hluthafi í NTH með 44% hlut, FL Group á 34% og Sund 22%.

„Við erum ekki búnir að loka bókunum en það er búist við að það verði hagnaður fyrir EBITDU en tap á eftir, þó svo að ljóst sé að afkoman hafi klárlega batnað eins og verið hefur frá því að fyrirtækin fóru undir hatt NTH,“ segir Þorsteinn Örn. „Það e  ekkert í kortunum annað en að við skilum góðum árangri í ár og við stefnum að því að ná 3-4 milljörðum í EBITDA á þessu ári. Við hvikum ekki frá þeirri stefnu nema útlit verði fyrir einhverja slagsíðu, og það er ekkert sem bendir til þess nú,“ segir Þorsteinn Örn. Félagið skuldi lítið og reksturinn í góðu jafnvægi. „Við stefnum að því að skerpa á stefnunni á þessu ári, bæði vörumerkinu og ímynd félagsins, og styrkja félagið umtalsvert líka á sviði yfirstjórnar,“ segir Þorsteinn Örn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .