Ríkisstjórnin hefur samþykkt nýja stefnumörkun í loftslagsmálum. Stefnumörkunin er hugsuð sem rammi utan um aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum, sem verður í reglulegri endurskoðun í ljósi nýrrar vísindalegrar þekkingar, þróun alþjóðlegrar samvinnu gegn loftslagsbreytingum og áherslu stjórnvalda hverju sinni.

Í fréttatilkynningu kemur fram að hún er víðtækari en fyrri stefnumörkun frá 2002, sem miðaði einkum að því tryggja að Ísland myndi standa við skuldbindingar sínar gagnvart Kýótó-bókuninni.


Í stefnumörkuninni er sett langtímasýn um að minnka nettólosun gróðurhúsalofttegunda um 50-75% fram til 2050, miðað við árið 1990. Með nettólosun er átt við losun að frádreginni bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu.

Sett eru fram fimm meginmarkmið íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum, sem miða að því að gera langtímasýnina að veruleika:

1. Íslensk stjórnvöld munu standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar innan ramma Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og Kýótó-bókunarinnar.
2. Leitað verður allra hagkvæmra leiða til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Markvisst verður stuðlað að samdrætti í notkun jarðefnaeldsneytis, en þess í stað nýtt endurnýjanleg orka og loftslagsvænt eldsneyti.
3. Stuðlað verður að aukinni bindingu kolefnis úr andrúmslofti með skógrækt og landgræðslu, endurheimt votlendis og breyttri landnotkun.
4. Rannsóknir og nýsköpun á sviði loftslagsmála verður efld og stutt við útflutning á íslensku hugviti á sviði endurnýjanlegrar orku og loftslagsvænnar tækni.
5. Undirbúin verður aðlögun að loftslagsbreytingum jafnhliða því sem leitað verður leiða til að draga úr hraða þeirra og styrkleika.

Lagðar eru til fjölmargar aðgerðir í því skyni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá sex uppsprettum: Orkuframleiðslu, samgöngum og eldsneyti, iðnaðarferlum, sjávarútvegi, landbúnaði og úrgangi. Einnig eru lagðar til aðgerðir til þess að auka bindingu kolefnis. Tölulegir vísar eru í skýrslunni um losun frá Íslandi og einstaka uppsprettum, sem verða uppfærðir reglulega svo unnt sé að fylgjast með framgangi loftslagsstefnunnar og árangri.