Að sögn Lárusar Finnbogasonar, formanns skilanefndar Landsbankans, er stefnt að fjölga starfsmönnum skilanefndar innan skamms. Á vegum skilanefndar starfa 20 manns í Reykjavík auk nefndarmanna sem eru fimm. Lárus sagði að fljótlega þyrfti að fjölga starfsmönnum og væri stefnt að því að þeir yrðu komnir upp í 30 innan skamms.

Þetta kemur fram í samtali við Lárus í Viðskiptablaðinu í gær.

Auk þess starfa 75 manns í London sem eru starfsmenn útibúsins þar. Laun þeirra eru kostuð af gamla Landsbankanum. Einnig er útibú í Amsterdam og þar eru þrír starfsmenn. Í Kanada var útibú sem skilanefndin færði yfir í dótturfélag. Þar eru sjö starfsmenn. Skilanefndin er með þjónustusamning við Nýja Landsbankann (NBI) sem sér nefndinni fyrir margvíslegri þjónustu, svo sem á sviði tölvu- og upplýsingamála. Þannig má segja að það séu á milli 30 til 50 manns hjá NBI sem starfa fyrir skilanefndina. "Þetta er auðvitað heilmikil starfsemi enda bankinn stór eins og sést af efnahagsreikningi okkar," sagði Lárus.

Hann sagðist ekki geta sagt til um það á þessari stundu hver rekstrarkostnaður vegna uppgjörs bankans yrði. Hann játaði að það væri mikið um það spurt af kröfuhöfunum og framundan væri aukin vinna við að taka það saman. Kostnaðurinn er greiddur af þrotabúinu en laun skilanefndarmanna koma hins vegar úr ríkissjóði af reikningum FME eins og kveðið er á um í neyðarlögunum. Allir skilanefndarmenn starfa sem verktakar og skila inn reikningum fyrir sína vinnu.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu.