Frumvarp samgöngumálaráðherra um lög á verkfall flugvirkja verður lagt fram á Alþingi í dag.

Frumvarpið getur orðið að lögum í dag en greiða þarf  atkvæði um afbrigði svo taka megi málið á dagskrá. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að stjórnarandstaðan muni ekki beita sér gegn þeim afbrigðum.

Að lokinni fyrstu umræðu fer málið til umfjöllunar í samgöngunefnd. Talið er að nefndin afgreiði frumvarpið hratt og sendi það aftur til umræðu í þinginu. Frumvarpið gæti þannig orðið að lögum frá Alþingi um miðjan dag og um leið yrði þá verkfall flugvirkja úr sögunni.

Í tilkynningu frá Icelandair kemur fram að stefnt sé að því að hefja flug síðdegis í dag um klukkan 16.00, þó endanlegar ákvarðanir um það verði ekki teknar fyrr en Alþingi hefur lokið meðferð sinni.

Fram kemur að um tvö þúsund farþegar bíða nú eftir flugi og Icelandair leggi áherslu á að hefja starfsemi eins fljótt og unnt er.