Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, hefur skipað nefnd undir formennsku Svanhildar Konráðsdóttur, formanns ferðamálaráðs, í því skyni að gera tillögur til undirbúnings ákvarðana í tengslum við endurskoðun á ferðamálaáætlun til 2015.

Nefndinni er ætlað að skila tillögum í vor sem lúta að því með hvaða hætti opinberum fjárstuðningi við einstaka þætti ferðamála sé best skipað, á hvern hátt stjórnvöld geti stuðlað að árangursríku skipulagi í ferðamálum innanlands og hvernig þau geti tryggt samstarf og sem besta nýtingu fjármuna í markaðsmálum ferðaþjónustunnar og almennri landkynningu.

Nefndinni er falið að vinna verk sitt í samráði við nefnd forsætisráðherra um úttekt á skipan ímyndarmála Íslands.

Svanhildur formaður 9 manna nefndar

Í nefndinni eru Adolf Berndsen, formaður Samtaka sveitarfélaga á Norðvesturlandi;

Árni Páll Árnason alþingismaður;

Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Útflutningsráðs;

Jón Karl Ólafsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar;

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri;

Ólöf Nordal alþingismaður;

Sigríður Ásdís Snævarr sendiherra;

Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda

og Svanhildur Konráðsdóttir, formaður ferðamálaráðs.