Icelandair Group var á fyrstu níu mánuðum ársins hluti af FL Group, en félagið skipti sem kunnugt er um eigendur í síðasta mánuði og er nú unnið að undirbúningi þess að gera félagið að almenningshlutafélagi og stefnt að skráningu í Kauphöll Íslands 6. desember næstkomandi segir í frétt félagsins.

Hagnaður Icelandair Group fyrir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins var 3,939 milljarðar króna. Hagnaður Icelandair group fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var 5,7 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðunum að því er kemur fram í frétt félagsins.


EBIT nemur 3,8 milljörðum og eykst um rúmlega einn milljarð króna frá sama tíma á síðasta ári.  Heildartekjur fyrirtækisins á fyrstu níu mánuðunum voru 43,5 milljarðar króna, sem er 23% aukning frá sama tíma á árinu 2005.


Innan Icelandair Group eru fyrirtækin Icelandair, Icelandair Cargo, Icelandair Ground Services, Icelandair Technical Services, Loftleiðir-Icelandic, Bluebird Cargo, Icelease, Flugfélag Íslands, Icelandair Hotels og Iceland Tours og Fjárvarkur.

Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group segir í tilkynningunni: "Þessi rekstrarárangur er einn sá besti í sögu félagsins. Sem kunnugt er hefur fyrirtækið gengið í gegnum miklar breytingar á undanförnum misserum og rekstrarsamanburður við fyrri ár byggir á reikningum þeirra fyrirtækja sem nú eru í samstæðunni. Þessi samanburður sýnir mikinn vöxt og góða afkomu í flestum fyrirtækjum innan samstæðunnar og er í samræmi við áætlanir okkar. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá viðsnúning og ágæta afkomu Icelandair Hotels og Iceland Tours, tveggja ferðaþjónustufyrirtækja sem hafa verið endurskipulögð á þessu og síðasta ári. Afkoman af millilandaflugi Icelandair, sem er stærsta eining samstæðunnar, hefur verið góð á árinu þrátt fyrir tæplega tveggja milljarða króna hækkun eldsneytiskostnaðar, og staða félagsins er sterk, einkum á heimamarkaðinum. Bókunarstaða er góð og við gerum ráð fyrir að rekstur félagsins á árinu gangi samkvæmt áætlun."