Í tilkynningu til Kauphallarinnar, sem send var rétt í þessu, kemur fram að stefnt er að skráningu Icelandair á hlutabréfamarkað fyrir árslok. Samkvæmt samkomulagi sem FL Group og Glitnir hafa gert með sér, mun Glitnir, að undangenginni hefðbundinni áreiðanleikakönnun, sölutryggja 51% hlut í Icelandair Group.

Þetta þýðir að Icelandair Group hverfur úr samstæðu FL Group þegar áreiðanleikakönnun lýkur. Stefnt er að því að henni ljúki um miðjan október og að Icelandair Group verði skráð á hlutabréfamarkað fyrir áramót segir í tilkynningunni.

FL Group hefur áður lýst vilja sínum til að skrá Icelandair Group á markað en einnig lýst sig reiðubúið til að fylgja félaginu úr hlaði sem kjölfestufjárfestir. Við skráningu Icelandair Group mun hlutur FL Group minnka verulega og einnig er mögulegt að félagið geri það áður en til skráningar kemur.

Icelandair Group er eignarhaldsfélag með 12 sjálfstæðum rekstrarfélögum í flugrekstri og ferðaþjónustu. Starfsmenn félagsins eru 2.700 og velta félagsins á þessu ári er áætluð 54 milljarðar íslenskra króna. Rekstri félagsins er skipt í 3 meginsvið; Áætlunarflug millilanda, leiguflug á erlendum mörkuðum og ferðaþjónustu á Íslandi. Meginundirstaða rekstrarins er millilandaflug Icelandair sem byggir á tengiflugi milli Evrópu og Ameríku með megináherslu á Ísland. Félagið flýgur til 22 áfangastaða beggja vegan hafsins og flutti á seinasta ári um eina og hálfa milljón farþega.

Í tengslum við skráningu Icelandair Group á hlutafjármarkað mun fara fram almennt hlutafjárútboð, þar sem fagfjárfestum annarsvegar og almenningi hinsvegar gefst kostur á að skrá sig fyrir hlut í Icelandair Group. Nánar verður gert grein fyrir sölufyrirkomulagi þegar áreiðanleikakönnun er lokið.

Starfsemi Icelandair Group mun verða með óbreyttu sniði. Stjórnendur félagsins munu áfram leiða það og stjórnin verður óbreytt. Allir 2700 starfsmenn félagsins munu áfram verða hluti þeirrar sterku heildar sem myndar Icelandic Group.

FL Group er fjárfestingarfélag sem sérhæfir sig annars vegar í áhrifafjárfestingum og umbreytingar­verkefnum og hins vegar í eignastýringu þar sem lögð er áhersla á virka þátttöku á verðbréfamörkuðum. Félagið horfir einkum til Norður-Evrópu í sínum fjárfestingum en hefur þó almennt breiða sýn. Í lok júní 2006 voru heildareignir félagsins 202,6 milljarðar króna. FL Group er skráð í Kauphöll Íslands (ICEX: FL).

Stærstu hluthafar FL Group eru: Eignarhaldsfélagið Oddaflug ehf. (18,3%), í eigu Hannesar Smárasonar, forstjóra; Baugur Group (17,8%); Magnús Kristinsson (14,7%); Kristinn Björnsson (8,4%); Icon (5,6%) og Materia Invest (5,1%). Í sumum tilfellum eru hlutirnir skráðir á nafn íslenskra fjármálafyrirtækja vegna framvirkra samninga.