Skipti hf. skilar 3,1 milljarða króna hagnaði 2007 og er það viðsnúningur upp á 6,7 milljarða króna frá fyrra ári. Salan jókst um 7,7 milljarða króna á milli ára eða um 31%. Sala nam 32,7 milljörðum króna samanborið við 25,0 milljarða árið áður segir í tilkynningu félagsins.

Hagnaður ársins var 3,1 milljarður króna samanborið við 3,6 milljarða króna tap fyrir árið 2006.  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) er 9,5 milljarðar króna samanborið við 8,4 milljarða króna árið áður. EBITDA hlutfall var  28,5%.

Skipti hafa á undanförnum misserum keypt fyrirtæki með starfsemi í Bretlandi og á Norðurlöndum. Á árinu mynduðust um 20% af tekjum samstæðunnar utan Íslands.  Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 9,0 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall Skipta hf. er 34%.

Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta hf.segir um uppgjörið í tilkynningu: “ Afkoma samstæðunnar er mjög góð hvort sem horft er til starfseminnar í fjarskiptum eða upplýsingatækni. Horfur í rekstri fyrir þetta ár eru ágætar. Skipti heldur áfram að fylgja þeirri stefnu að efla starfsemina erlendis og á undanförnum misserum höfum við keypt félög með starfsemi í Bretlandi, Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Á Íslandi hefur starfsemin gengið mjög vel og stærsta dótturfélagið, Síminn, skilar mjög góðri afkomu auk þess sem þjónusta við viðskiptavini hefur verið efld enn frekar. Undirbúningur fyrir skráningu Skipta á markað gengur vel en vegna viðræðna um möguleg kaup á slóvenska fjarskiptafélaginu Telecom Slovenije þá hefur ferlinu seinkað nokkuð og er nú stefnt að skráningu í lok mars”