Fyrirtækið Alda Design hannar og steypir gólf- og veggflísar úr íslenskri steypu með heldur óvenjulegu sniði. Félagið stefnir að því að hefja útflutning á næsta ári.

Alda Design ehf. var stofnað árið 2005 og upphófst þá tveggja ára rannsóknarverkefni í samvinnu við Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins, Impru og Nýsköpunarmiðstöð.  Verkefni þetta fólst í því að endurtaka próf og rannsóknir sem þegar höfðu verið unnar í Bandaríkjunum en þær mælingar voru ófullnægjandi fyrir íslenska staðla og aðstæður. Fyrirtækið hefur nú fyrir hendi þrýstiþol, brotþol, rakadrægni og hálkuprófanir sem fullnægja þeim stöðlum sem krafist er fyrir íslenskan og evrópskan markað.  Einnig hefur Alda Design unnið að því að þróa mismunandi yfirborðsáferðir og viðhald þeirra.

"Markmið fyrirtækisins er að geta hafið útflutning íslenskrar flísa á árinu 2009. Við erum núna fyrst með nokkur góð verkefni hér á landi til að sýna þessa vöru.  Alda Design Inc er með mörg slík verkefni úti í Bandaríkjunum en við erum einungis með íslensk efni í dag og þurfum að geta sýnt verkefni með þeirri vöru í íslensku umhverfi og íslenskri hönnun," sagði Dagný Alda Steinsdóttir hönnuður og stofnandi í samtali við Viðskiptablaðið.