Að sögn Baldurs Baldurssonar, nýs stjórnarformanns Norðurljósa, er stefnt að því að leysa félagið upp þegar niðurstaða hefur fengist í skattamál félagsins. Á hluthafafundi félagsins í morgun var gerð sú breyting á samþykktum félagsins að fjölmiðlarekstur var feldur út og stjórnarmönnum fækkað úr 5 í 3. Að sögn Baldurs verður félagið fyrst og fremst eignarhaldsfélag þar til skattamálin hafa verið gerð upp.

Breytingarnar nú staðfesta þann aðskilnað sem orðið hefur á milli Norðurljósa annars vegar og Íslenska útvarpsfélagsins og Fréttar hins vegar en síðarnefndu félögin voru nýlega seld til Og Vodafone. ?Þegar skattaskuldir félagsins hafa verið greiddar verður félagið gert upp," sagði Baldur sem jafnframt er framkvæmdastjóri Alianz Íslandi. Að sögn Baldurs eru helstu eignir Norðurljósa 18% eignarhlutur í Og Vodafone auk einhverra fjármuna og skuldabréfa.

Ríkharð Ottó Ríkharðsson var ráðinn framkvæmdastjóri Norðurljósa í stað Gunnars Smára Egilssonar á fundinum í morgun en Ríkharð er viðskiptafræðingur og MBA og var framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs félagsins Mjallar-Friggjar hf. þar til í sumar er hann tók við sem framkvæmdastjóri Fons eignarhaldsfélags en það er að stærstum hluta í eigu Pálma Haraldssonar fjárfestis sem nú gengur út úr stjórn Norðurljósa.