Samningar um skil á milli gömlu og nýju bankana eru nú á lokastigi og stefnt er að því að þeim verði í meginatriðum lokið í dag, að því er segir í fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins. Fjármálaeftirlitið hafði veitt endanlegan frest til dagsins í dag, 17. júlí. Unnið verður að endanlegum frágangi og miðlun upplýsinga til kröfuhafa allra næstu daga. Á mánudag ráðgerir ríkisstjórnin að gefa út yfirlýsingu þar sem grein verður gerð fyrir niðurstöðunni og um leið hvernig staðið verður að endurfjármögnun bankanna.

Samningaviðræður hafa staðið yfir á milli fulltrúa stjórnvalda annars vegar og skilanefnda gömlu bankanna fyrir hönd kröfuhafa hins vegar, um endanleg fjárhagsskil á milli gömlu og nýju bankanna. Í tilkynningu ráðuneytisins segir að stjórnvöld hafi kappkostað að tryggja hagsmuni Íslands í þessum viðræðum um leið og fullrar sanngirni væri gætt gagnvart viðsemjendum. Þar sé um að ræða ólíka aðila með mismunandi hagsmuni.