Stjórn Cherryförtagen, sem Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki á 27% hlut í, hefur ákveðið að skipta félaginu upp í þrjá hluta og skrá í sænsku kauphöllina. Þetta kemur fram í frétt sænska dagblaðsins Dagens Industri, sem greiningardeild Landsbankans vitnar til í Vegvísi sínum í dag.

Stuttu eftir að tilkynnt var um breytingarnar hækkaði gengi bréfa fyrirtækisins um 12%.

Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að hugmyndin sé að í framhaldinu verði til þrjú fyrirtæki sem sérhæfa sig í ólíkri spilastarfsemi; Betson, Net Entertainment og Cherry Casino. Stjórn fyrirtækisins vonanst til að með því að brjóta fyrirtækið upp í þrjá hluta verði auðveldara að þróa hvern þátt starfseminnar og gera fyrirtækin áhugaverðari fjárfestingarkosti.