Fjárlaganefnd sendi í fyrradag bréf til allra ráðuneytisstjóra þar sem brýnt er fyrir ráðuneytum að hagræða í opinberum innkaupum. Í bréfinu, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, segir að nefndin hafi átt fund með Ríkiskaupum um þann ávinning sem hægt sé að ná með bættum innkaupum. Í bréfinu er bent á að innkaup séu stór hluti af útgjöldum ríkisins, um 25% af heildarútgjöldum eða á bilinu 150-170 milljarðar króna ári.

Það sé því ljóst að undirliggjandi hagsmunir af hálfu ríkisins séu miklir „og mikilvægt að ýtrustu hagkvæmni sé gætt og ástæða til að leita allra leiða til þess að bæta núverandi innkaupaferli“.

Fjárlaganefnd stendur föst á því að hægt sé að hagræða miklu meira en gert er í dag. Í bréfinu segir að sameiginleg innkaup ríkisins, í gegnum rammasamninga og fleira, nemi aðeins um 30% af heildarinnkaupunum. Tekur nefndin dæmi um að allt að 45% verðmunur sé á tölvuinnkaupum milli stofnana.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .