Stefnt er að því að birta skýrslu um afnám gjaldeyrishafta í dag. Í fyrstu átti að birta skýrsluna þann 11. mars síðastliðinn en var frestað samdægurs um tvær vikur. Á stýrivaxtafundi 16. mars sl. sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, að ástæðu fyrir seinkun mætti rekja til „fjölda kokka í eldhúsinu“ og átti þá við að margir kæmu að gerð áætlunarinnar.

Már sagði að ekki væri ástæða til að stressa sig á að útgáfan frestist um einhverjar vikur og ítrekaði að það væri jákvætt að margir komi að ger hennar. Hann sagðist telja að meiri sátt ríki um fyrstu skref í afnámi hafta en þau síðari. Þá kom fram að engar nákvæmar tímasetningar verði að finna í áætluninni heldur verður atburðarás byggð á aðstæðum og hvernig skrefin á undan gengu.

Ríkisstjórnin tekur afstöðu

Eins og áður segir stendur til að birta skýrsluna í dag. Yrði það þá gert í kjölfar þess að ríkisstjórn tekur afstöðu til tillagna stýrihópsins sem haft hefur forystu um gerð skýrslunnar. Í stýrihópnum eiga sæti efnahags- og viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra, seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Hefðbundinn fundur ríkisstjórnarinnar hófst klukkan 09:30 í morgun.