Þýska fyrirtækið PCC SE sem stendur fyrir byggingu kísilmálmverksmiðju á Húsavík hefur stofnað dótturfélag um byggingu 45 íbúða í bænum.

Framkvæmdir í gangi

Er fyrirtækið stofnað utan um byggingarframkvæmdir á lóðum í nýju hverfi í suðurhluta bæjarins. Bergur Elías starfsmaður PCC og fyrrverandi sveitarstjóri Norðurþings segir töluverða þörf fyrir íbúðabyggingar fyrir starfsmenn fyrirtækisins sem það hyggst byggja í nýju hverfi, Holtahverfinu, en þar verður lágreist hverfi með einbýlis- og parhúsum ásamt tveggja hæða húsum.

Samkvæmt greiningu á húsnæðismálum bæjarins sem fyrirtækið Alta stóð fyrir þarf að bæta við allt að 120 íbúðum í bænum vegna þeirra starfa sem til verða í bænum með tilkomu verksmiðjunnar. Stefnt er að því að verksmiðja PCC taki til starfa í um jólin 2017, en síðustu vikur hefur verið unnið að því að steypa undirstöður byggingarinnar. Starfa nú á annað hundrað manns við byggingaframkvæmdirnar eftir því sem segir í frétt DV um málið.