175 sóttu um níu störf sem auglýst voru nýverið hjá Ríkisútvarpinu . Þar af voru 97 karlar og 78 konur. Fram kemur á vef RÚV að umsækjendur hafi upphaflega verið á þriðja hundraðið. Nokkrir tugir umsækjenda hafi dregið umsóknir til baka áður en listi yfir nöfn umsækjenda var birtur opinberlega. Í sumum tilvikum sótti sama fólkið um nokkrar stöður.

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri sagði í samtali við VB.is í mars að í nýrri framkvæmdastjórn RÚV væri horft til þess að jafnrétti verði á milli kynja. Í framkvæmdastjórninni sem Magnús sagði upp og hyggst ráða í í kringum miðjan apríl, sat aðeins ein kona.

Konur voru í meirihluta þeirra sem sóttu um starf mannauðsstjóra eða 15 konur á móti 7 körlum. Þá sóttu tíu konur um starf skrifstofustjóra á móti fimm körlum. Tiltölulega fáar konur vilja verða vef- og nýmiðlastjóri. Aðeins 6 konur sóttu um starfið á móti 22 körlum. Þá sóttu 12 konur um starf framkvæmdastjóra rekstrar‐, fjármála‐ og tæknisviðs en 22 karlar. Kynjahlutfall umsækjenda var aðeins jafnt um stöðu stöðu framkvæmdastjóra samskipta, þróunar- og mannauðssviðs.