Tryggingafélagið Sjóvá hagnaðist um 642 milljónir króna á síðasta ári. Fyrirtækið hagnaðist um 811 milljónir króna árið 2010.

Seðlabankinn tók Sjóvá yfir í kjölfar bankahrunsins og eru málefni félagsins þegar það var í eigu Milestone og fleiri til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Eignasafn Seðlabankans, sem hélt utan um eign ríkisins í tryggingafélaginu, seldi rúman helmingshlut í Sjóvá á síðasta ári.

Fram kemur í uppgjöri Sjóvár sem kynnt var á aðalfundi tryggingafélagsins í dag, að afkoman hafi verið í takt við væntingar. Eigið fé nam tæpum 13 milljörðum króna um áramótin og að sérstök niðurfærsla á óefnislegum eignum, sem oft er kölluð viðskiptavild,  hafi numið rúmum 1,6 milljörðum króna.

Þá kemur fram í tilkynningu sem send var fjölmiðlum eftir aðalfundinn að ráðist hafi verið í skipulagsbreytingar hjá félaginu og sé stefnt að skráningu Sjóvár í Kauphöllina.