Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur útbúið drög að uppfærðri eigandastefnu fyrir fjármálafyrirtæki. Hægt er að lesa fréttatilkynningu um málið hér.

Bankasýsla ríkisins fer með um 72% eignarhlut ríkisins í eigin fé bankanna eins og sakir standa eins og áður hefur komið fram í umfjöllun Viðskiptablaðsins.

Landsbankinn

Þar kemur fram að stefnt sé að því að ríkissjóður eigi til langframa verulegan eignarhlut 34 til 40% til langframa í Landsbankanum í því skyni að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfi landsins. Eignarhlutur ríkisins í bankanum verði að öðru leyti seldur á næstu árum þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi og jafnframt verði stefnt að skráningu á hlutabréfamarkað. Ríkissjóður á 98,2% hlut í Landsbankanum hf.

Íslandsbanki

Stefnt er að því að selja allan eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi. „Ríkið eignaðist 100% í Íslandsbanka sem hluta af stöðugleikaframlagi Glitnis við uppgjör slitabúsins. Eignarhald ríkisins á Íslandsbanka byggist á lögum nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt, og skal því arðgreiðslum og söluandvirði bankans ráðstafað til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs,“ segir í fréttatilkynningunni. Ríkissjóður á 100% eignarhlut í Íslandsbanka hf.

Arion banki

„Stefnt er að því að selja allan eignarhlut ríkisins þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi og mun salan að öllum líkindum eiga sér stað í tengslum við sölu meirihlutaeigandans og skráningu bankans á hlutabréfamarkað. Ríkissjóður á um 84 ma.kr. skuldabréf á Kaupþing ehf. með veði í 87% hlut í Arion. Verði skuldabréfið ekki greitt lok janúar 2018 færist Arion banki að öllu leyti til ríkisins. Einnig er í gildi ábataskiptasamningum sem felur í sér greiðslur til ríkissjóðs seljist Arion banki á tilteknu verði,“ er tekið fram í tilkynningunni. Ríkissjóður á 13% eignarhlut í Arion banka hf.

Einnig er stefnt að því að selja allan eignarhlut ríkisins í Sparisjóði Austurlands, en ríkið á 49,5% eignarhlut í sparisjóðnum.

Eigandastefna fyrir fjármálafyrirtæki sem ríkissjóður á eignarhluti í, og Bankasýsla ríkisins fer með samkvæmt lögum, var sett fram árið 2009 og tók þá til nýju viðskiptabankanna þriggja og nokkurra sparisjóða sem þá voru að hluta til í eigu ríkissjóðs. Hún gildir nú fyrir fjögur fjármálafyrirtæki: Landsbankann, Íslandsbanka, Arion banka og Sparisjóð Austurlands.

Eigandastefnan endurspeglaði stöðuna eftir endurreisn fjármálakerfisins og aðstæður í ríkisfjármálum og á fjármálamarkaði á þeim tíma. Staða hagkerfisins og ríkisfjármála er nú gjörbreytt til hins betra.  Einnig hefur eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum tekið grundvallarbreytingum og á ríkið nú meirihluta bankakerfisins. Þá hefur Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, gefið út nýjar leiðbeiningar um stjórnarhætti ríkisfyrirtækja. Því er orðið tímabært að uppfæra eigandastefnu fyrir fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins.

Samkvæmt hjálögðum drögum að endurskoðaðri eigandastefnu falla niður ýmsar áherslur sem mótaðar voru í kjölfar endurreisnar fjármálakerfisins.  Í stað þeirra er lögð áhersla á að fjármálafyrirtæki veiti viðskiptavinum sem skilvirkasta þjónustu og tryggi ásættanlega arðsemi. Skerpt er á ákvæðum um stjórnarhætti, upplýsingagjöf, gagnsæi og fagleg vinnubrögð. Undirstrikuð er sú skylda stjórna að fara að ákvæðum eigandastefnunnar og upplýsa eiganda í þeim tilvikum sem slíkt er ekki talið hægt eða ef stjórn verður þess áskynja að ekki hefur verið farið eftir þeim.