Unnið er að því að tvískrá Íslandsbanka á markað, annars vegar á Norðurlöndum og hins vegar á Íslandi. Þorri bréfa bankans yrðu sett á markað erlendis. Þetta er fullyrt í Kjarnanum í dag. Þar er jafnframt fullyrt að stefnt sé að því að skráningin geti orðið að veruleika á árinu 2014.

Með þessu myndi fást gjaldeyrir fyrir Íslandsbanka, en hann er metinn á um 130 milljarða króna. Það er um helmingur af krónueignum bankans. Með þessu myndi þrýstingur á íslensku krónuna minnka og þannig yrði stigið skref í átt að afnámi fjármagnshafta. Glitnir á 95 prósenta hlut í Íslandsbanka en íslenska ríkið á fimm prósent.

Slitastjórn Glitnis ræddi mögulega tvíhliða skráningu Íslandsbanka á fundi með kröfuhöfum í New York i október. Hún staðfesti það við VB.is skömmu eftir að fundurinn var haldinn.