„Vinnan gengur vel og hefur miðað ágætlega síðustu misseri, segir Bjarni Harðarson, upplýsingafulltrúi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, aðspurður um hvernig vinnu miði við frumvarp sem tekur til breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu. „Það er unnið eftir því að skapa víðtæka sátt um stjórn fiskveiða. Sú leiðsögn sem fyrir liggur, frá starfshópnum sem skilaði af sér skýrslu á haustmánuðum í fyrra, er það sem meðal annars er notast við í þessari vinnu. Það verður alveg ljóst að það verður skorið úr um það að auðlindin og ráðstöfunarrétturinn verði í eigu þjóðarinnar. Það verða gerðir tímabundnir nýtingarsamningar við þá sem hafa þá stöðu að geta gert slíka samninga til tiltekins tíma.“

Ríkur vilji stjórnvalda

Eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu í síðustu viku eru mestar líkur á að stjórnvöld taki mið af þeim hugmyndum sem starfshópur undir forystu Guðbjarts Hannessonar, núverandi velferðarráðherra, fjallaði um í vinnu sinni. Hann skilaði niðurstöðum sínum sl. haust.

Öll vinna stjórnvalda miðar að því að ná fram sem mestri sátt um málið að því er fram hefur komið á opinberum vettvangi. Málið er hins vegar eldfimt. Ekki síst hjá þ„eim sem starfa í útgerð. Frumvarp um breytingar á stjórn fiskveiða verður lagt fram á næstunni og verður að líkindum afgreitt áður en þingið fer í sumarfrí, samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu.

Útgerðarmenn hafa lýst yfir miklum efasemdum um þær leiðir sem stjórnvöld hafa boðað. Þær fela flestar í sér fyrningu aflaheimilda á ákveðnum tíma og síðan endurúthlutun til lengri tíma.

Bjarni segir aðspurður að reynt verði að vinna að breytingum á kerfinu í sem mestri sátt við útgerðarmenn. Ljóst sé þó að það kunni að vera erfitt. „En markmiðið verður alltaf það að reyna eftir fremsta megni að ná sátt um stjórn fiskveiða á þeim grunni að auðlindir sjávar séu í eigu þjóðarinnar og ráðstöfunarrétturinn sömuleiðis,“ segir Bjarni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.