Í opinberri tilkynningu Origo hf. til kauphallar þann 27. júní síðast liðinn  var upplýst um stöðu á söluferli á verulegum eignarhlut í Tempo ehf. Í tilkynningunni kom fram að félagið væri í samstarfi við fjárfestingabankann AGC Partners í Boston og ekki væri gert ráð fyrir að söluferlinu lyki fyrir mitt ár 2018 eins og áætlað var.

Í tilkynningunni kom einnig fram að nánar yrði gerð grein fyrir stöðu söluferlisins í afkomutilkynningu í ágúst næstkomandi eða fyrr ef nýjar upplýsingar lægju fyrir.

Stjórn Origo hf. samþykkti í gær að undirrita samkomulag um einkaviðræður um sölu á um þriðjungshlut í Tempo ehf. til HPE Growth Capital („HPE“), alþjóðlegs fjárfestingasjóðs sem sérhæfir sig í fjárfestingum í ört vaxandi tæknifyrirtækjum. Með undirritun samkomulags þessa hefja aðilar einkaviðræður um kaupin með það að markmiði að komast að samkomulagi um bindandi samning. Viðræður aðila munu byggja á forsendum og skilmálum samkomulagsins að teknu tilliti til niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.

Fyrirhuguð kaup miða við að heildarvirði Tempo ehf. sé 62,5 milljónir bandaríkjadalir og að HPE eignist um þriðjung hlutafjár í Tempo ehf. Gangi viðskiptin eftir er gert ráð fyrir að þeim ljúki í september eða október næstkomandi.