*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 28. nóvember 2021 15:31

Stefnt á frekari sölu í Íslandsbanka

Í stjórnarsáttmála segir að haldið verði áfram að draga úr eignarhaldi í fjármálakerfinu og ábatinn nýttur til uppbyggingar innviða.

Ritstjórn
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, fyrir utan Bessastaði fyrir ríkisráðsfund. Bjarni hefur talað fyrir að losa frekar um eignarhald ríkissjóðs í Íslandsbanka.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri Grænna, sem einnig mynduðu ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili, segir að ríkissjóður muni „halda áfram að draga úr eignarhaldi í fjármálakerfinu og nýta ábatann til uppbyggingar innviða". Má ætla að þarna sé vísað til Íslandsbanka.

Ríkissjóður á 65% hlut í Íslandsbanka í kjölfar sölu 35% hlutar í bankanum sl. sumar með skráningu á Aðalmarkað Kauphallar Nasdaq á Íslandi. Eins og þekkt er fékk ríkið bankann í fangið í fjármálahruninu árið 2008.

Fyrsti viðskiptadagur með bréf Íslandsbanka var í lok júní mánaðar á þessu ári. Útboðsgengi bréfa bankans nam 79 krónum á hlut, en við lokun markaða á föstudag stóð gengi bréfa bankans í 124,6 krónum á hlut. Er gengi bréfanna því nú tæplega 60% yfir útboðsgengi.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur áður sagt að stefnt sé að frekari sölu á eignarhlut ríkisins í bankanum og er þessu nú slegið föstu í stjórnarsáttmála.

Landsbankinn er einnig í eigu ríkissjóðs en enn sem komið er virðast engin áform hafa verið gerð um sölu eignarhluta ríkisins í bankanum.