Stefnt er að því að 0,5 milljarða afgangur verði á fjárlögum næsta árs. Það verða fyrstu fjárlögin þar sem gert er ráð fyrir afgangi frá bankahruni haustið 2008. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gerði grein fyrir þessu á blaðamannafundi í Salnum í Kópavogi í morgun.

Samkvæmt tölum sem Bjarni kynnti lætur nærri að hallinn á fjárlögum ríkisins í ár verði tífaldur á við það sem ráðgert var þegar frumvarpið var kynnt fyrir ári síðan. Gert var ráð fyrir 3,7 milljarða halla á fjárlögum en nú stefnir í að hann verði 31,1 milljarður króna.

Bjarni sagði að ástæðurnar fyrir framúrkeyrslunni í ár væru fjölbreyttar, bæði hefðu útgjöld verið hærri og tekjur lægri. Lakari efnahagshorfur og minni umsvif í hagkerfinu hefðu orðið til þess að ríkissjóður hefði orðið af 13,5 milljarða tekjum. Einnig hefði ríkissjóður orðið af fjögurra milljarða króna tekjum vegna eignasölu og arðgreiðslna sem skiluðu sér ekki. Ákvarðanir sem teknar voru eftir samþykkt fjárlaga hefðu kostað fimm milljarða króna. Þá hefðu tekjur af veiðigjöldum veri 3,2 milljörðum krónum lægri en áætlað var og ný lög um aukin bótaréttindi örorku og ellilífeyrisþega kostað 1 milljarð króna.