Sænska félagið AdvInvest sem keypti 58% hlut í Advania fyrir nokkru fóru ekki í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans þegar þeir keyptu hann. Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, segir ástæðuna þau skilyrði og takmarkanir sem felist í fjárfestingarleiðinni.

„Það er í sjálfu sér umhugsunarefni að erlendir fjárfestar skuli ákveða að nýta ekki þann valkost. Eftir á að hyggja held ég að það sé styrkleikamerki fyrir þá sem og Advania að sú leið var ekki valin. Það er til dæmis mjög flókið ferli að tvískrá félag með þeim reglum og höftum sem gilda ef meirihlutaeigandinn hefði fjárfest með þeim hætti. Ávinningur þess að taka þátt í þeirri leið hefur líka farið mjög hratt minnkandi og dæmi eru um minna en 10% mun sem er út frá kvöðunum,“ segir Gestur.

Undanfarið hefur Advania verið ofarlega á lista yfir þau fyrirtæki sem talin eru líkleg inn í Kauphöll. Gestur segir að ekkert sé ákveðið í þeim efnum en ef til kemur sé verið að horfa á skráningu eftir tvö til fimm ár og þá er horft á tvískráningu í Reykjavík og Stokkhólmi.