Þróun á hlutabréfamörkuðum í Asíu var mjög misjöfn í dag, en hlutabréfavísitalan DJ Asia-Pacific lækkaði um 0,24%. Í Evrópu hafa hlutabréf lækkað mikið í fyrstu viðskiptum. Euronext 100 vísitalan hefur lækkað um 1% þegar þetta er skrifað.

Japan lækkaði um 0,38% í kjölfar neikvæðra talna um aukinn samdrátt í landsframleiðslu, en þær sýndu meiri samdrátt en mælst hefur frá því árið 1974, að því er segir í frétt WSJ. Þeir geirar sem leiddu lækkanirnar í Japan voru sjávarútvegur, timburvinnsla, málmframleiðsla, gler- og keramikframleiðsla. Hong Kong lækkaði um 1,46%, en Sjanghæ hækkaði um 2,6%.

Markaðir að verða ónæmir fyrir neikvæðum fréttum

„Fréttirnar þessa vikuna verða líklega neikvæðar, en markaðir eru að verða æ meira ónæmir fyrir neikvæðum fréttum,“ hefur WSJ eftir greinanda hjá Calyon, sem sagði einnig að horft yrði til áforma Bandaríkjastjórnar í húsnæðismálum og nánari útfærslu á aðstoð við bankageirann.