*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 3. mars 2006 09:24

Stefnum ekki á yfirtöku Kögunar

-segir Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans

Ritstjórn

Að sögn Brynjólfs Bjarnasonar, forstjóra Símans, eru engin áform í dag um yfirtöku á Kögun en sem kunnugt er þá eru Síminn og Exista í dag með um 38% hlutafjár í Kögun. Brynjólfur sagði að þeir hefðu einmitt gætt þess að verða ekki yfirtökuskyldir í málinu. Aðalfundur Kögunar verður haldinn 15. mars næstkomandi en honum hefur verið frestað einu sinni til þessa. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Aðspurður sagði Brynjólfur að þeir væru ekki búnir að ákveða eftir hve mörgum stjórnarmönnum þeir myndu sækjast hjá Kögun. "Það er ekki alveg ákveðið eftir hve mörgum stjórnarmönnum við sækjumst en það er ljóst að við erum ekki að leggja fram svona mikla peninga nema við höfum áhrif. Við verðum því að sjá til hvað kemur út úr því, vonandi þó í ágætri samvinnu við núverandi eigendur. En það segir sig sjálft að á bak við svona marga milljarða þá viltu hafa áhrif á stefnu og stjórn. Það má gera það með ýmsum hætti og við erum að vinna í þeim málum."

Brynjólfur tók fram að fyrir þeim vekti aðeins að fara heilshugar inn í Kögun til að vinna að málum þar. "Við gefum ekkert meira upp um það. Fjárfesting okkar byggist á því að við erum að fara meira inn í upplýsingatæknina. Við þekkjum fyrirtækið ágætlega og ætlum okkur að fara að vinna með því. Hvað verður í framtíðinni, kemur í ljós. Það eru engin yfirtökuáform í gangi og við höfum passað okkur á því að vera undir þeim svo ég tali nú alveg skýrt út."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.