Ísland stefnir hraðbyri í svipað þriggja banka kerfi og var fyrir hrun og er eini munurinn sá að nú fá stóru bankarnir minni samkeppni frá smærri fjármálafyrirtækjum. Kemur þetta fram í máli ónefnds forsvarsmanns fjármálafyrirtækis í skýrslu Samkeppniseftirlitsins sem kom út í dag. Samkeppniseftirlitið tekur undir margt af því sem fram kemur í máli hans, en textinn hljóðar í heild sinni svo:

„Eftir bankahrun heyrðust háværar raddir um að við endurreisn bankakerfis á Íslandi þyrftu menn að varast að gera sömu mistök og gerð voru fyrir hrun. Reynslan ætti að kenna okkur hvað bæri að varast, hvað væri áhættusamt og hvað ekki. Ekki mætti aftur koma til þess að fjármálafyrirtækin gætu vaxið stjórn- og eftirlitslaust á ábyrgð skattborgara. Því miður hefur þróunin ekki orðið eins og flestir vonuðust eftir og raunar hefur hún kannski orðið þveröfug.

Við stefnum því miður hraðbyri í svipað þriggja banka kerfi og var fyrir hrun. Munurinn er bara sá að í gamla kerfinu höfðum við smærri fjármálafyrirtæki sem veittu bönkunum samkeppni á afmörkuðum sviðum. Sparisjóðirnir veittu samkeppni í hefðbundinni bankaþjónustu en verðbréfafyrirtæki og fjárfestingarbankar veittu samkeppni á sviði verðbréfaþjónustu, fyrirtækjaráðgjafar o.þ.h. Þetta var vissulega oft ójöfn samkeppni en engu að síður fólst í henni nokkurt aðhald. Það mætti kannski orða það þannig að bankarnir hafi verið ráðandi á flestum sviðum en þeir voru þó ekki einráðir. Við núverandi aðstæður verða stóru bankarnir þrír ekki bara ráðandi, heldur einráðir ef ekkert er að gert.

Allt frá hruni hafa allar aðgerðir stjórnvalda og eftirlitsaðila því miður verið í sömu átt. Gildir þá einu hvort sem um er að ræða laga- eða reglubreytingar um starfsemina, gjöld, skatt eða aðrar álögur. Allt stefnir þetta í þá átt að gera smærri og sérhæfðari aðilum erfiðara fyrir að keppa við bankana. Það er engu líkara en menn séu meðvitað eða ómeðvitað að reyna að koma á fjármálakerfi þar sem enginn getur boðið nokkra fjármálaþjónustu nema stóru bankarnir þrír.“