Breskir fjölmiðlar telja það líklegt að stjórnendur French Connection vilji koma á formlegum fundi með Baugsmönnum til þess að komast að fyrirætlunum félagsins.

Baugur jók hlut sinn í French Connection í tæp 10% fyrr í vikunni en fyrir átti félagið 2,9% eignarhlut. Talið er að Baugur hafi keypt um sex milljónir hluta á genginu 285 pens á hlut. Heildarkaupverð er því í kringum 18 milljónir punda, sem samsvarar um tveimur milljörðum íslenskra króna.

Baugur fékk um 30 milljónir punda (3,34 milljarðar króna) fyrir hlut sinn í Somerfield en fyrirtækið neyddist til þess að draga sig úr þátttöku í hugsanlegri yfirtöku á bresku matvöruversluninni vegna Baugsmálins. Samstarfsaðili Baugs, Robert Tchenguiz, keypti hlutinn.

Blaðamaður breska dagblaðsins The Independent, Susie Mesure, segir í frétt í blaðinu í gær án þess að geta heimilda, að Baugur hafi áhuga á því að leysa út gengishagnað af bréfunum ef French Connection verður tekið yfir og afskráð. Baugur er talinn hafa leyst út um 10 milljóna punda (1,24 milljarðar króna) gengishagnað af fjárfestingu sinni í bresku stórversluninni House of Fraser þegar fyrirtækið var tekið yfir.

Stofnandi og stjórnarformaður French Connection, Stephen Marks, hefur verið bendlaður við hugsanlega yfirtöku á félaginu. Nafn Baugs hefur einnig verið nefnt í þessu sambandi. Marks hefur hins vegar sagt að hann muni aldrei selja félagið sem hann stofnaði fyrir um 30 árum síðan. Hann segist aldrei hafa talað við Jón Ásgeir Jóhannesson eða haft samband við hann eða Baug síðan félagið keypti um 2,9% hlut í French Connection fyrr á þessu ári. Baugur hefur ekki látið French Connection formlega vita af kaupunum.