Stefnumótasíðan PositiveSingles, sem er hugsuð fyrir fólk með kynsjúkdóma, hefur verið dæmd til að greiða 16,5 milljónir dollara í sekt vegna brots gegn friðhelgi einkalífs notenda sinna. Jafngildir fjárhæðin um tveimur milljörðum íslenskra króna. BBC News greinir frá málinu.

Eigandi síðunnar, fyrirtækið SuccessfulMatch, var sakað um að deila myndum og persónuupplýsingum um notendur síðunnar með öðrum stefnumótasíðum sem það starfrækti einnig, þrátt fyrir að hafa lofað notendum sínum algjörum trúnaði.

Fyrirtækið er til húsa í Kaliforníu í Bandaríkjunum og komst kviðdómur þar vestanhafs að þeirri niðurstöðu að það hefði brotið gegn innlendri neytendalöggjöf. Einnig komst kviðdómurinn að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hefði gerst sekt um fjársvik, kúgun og hefði framið brotin af ásetningi.